Tjaldsvæði Stöðvarfjarðar er við austurenda byggðarinnar, með salerni, rafmagni og losun fyrir húsbíla. Það stendur við fallegt skógræktarsvæði með grillaðstöðu og leiktækjum. Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn er opin allt árið í Brekkunni. Steinasafn Petru á Stöðvarfirði er eitt stærsta steinasafn sinnar tegundar og laðar á ári hverju til sín mikinn fjölda ferðamanna. Brekkan er allt í senn verslun, veitingastaður og upplýsingamiðstöð og skammt þar frá er veitinga- og gistihúsið Hótel Saxa. Þá hefur gamla þorpskirkjan á Stöðvarfirði verið afhelguð og þjónar nú sem lítið gistiheimili á vegum Kirkjubóls.
Á Stöðvarfirði er umfangsmikil lista- og handverksstarfsemi. Gallerí Snærós er eitt þekktasta listgallerí Austurlands og hefur Salthússmarkaðurinn, sem rekinn er af handverkssamfélagi Stöðvarfjarðar, getið sér gott orð fyrir úrval af vönduðu handverki. Í gamla frystihúsi staðarins er Sköpunarmiðstöðin, sem skapar list og nytjamuni úr endurvinnanlegu hráefni og Gallerí Svarthol er með lítinn og skemmtilegan sýningarsal í einu af heimahúsum staðarins. Sundlaug Stöðvarfjarðar er lítil og falleg útilaug.
Höfnin á Stöðvarfirði er einnig vinsæll viðkomustaður. Saxa er sjávarhver og eitt af þekktari náttúrufyrirbrigðum Austfjarða, en hann leynist í klettaskorningum við sjóinn, skammt utan við bæinn. Í austlægum vindáttum kurlar Saxa þara, rekavið og annað lauslegt úr sjó og þeytir hátt í loft upp. Stöðvarfjörður er einn af sjö bæjarkjörnum Fjarðabyggðar.
Þjónusta
Upplýsingar
Heimilisfang Fjarðarbraut
Póstfang/Bær 755 Stöðvarfirði
Sími 7760023
Netfang camping.stodvarfjordur@gmail.com
Vefsíða www.visitfjardabyggd.is
Opnunartími 1 júní – 1. september
Fjarlægð frá Reykjavík: 628 km
Fjarlægð frá Seyðisfirði: 97 km
Kort
Myndir

