Grettislaug á Reykhólum

Tjaldsvæði / Vestfirðir

Tjaldsvæðið við Grettislaug á Reykhólum við Breiðafjörð er í jaðrinum á litlu, fallegu þorpi með fjölbreyttri þjónustu. Frá svæðinu eru léttir göngustígar að fuglaskoðunarhúsi við Langavatn, steininum Grettistaki og hvernum Einireykjum. Reykhólar og Reykhólahérað koma víða við sögu Íslands, m.a. í Grettis sögu og Þorskfirðingasögu. Þar eru mörg örnefni sem minna á dvöl Grettis sterka á Reykhólum og aðra viðburði í fornritum. Á miðöldum voru Reykhólar auðugasta höfuðból Íslands enda einstök hlunnindajörð, einkum vegna sjávarfangs, æðarvarps og annarra náttúrunytja, og fjölmargar eyjar fylgdu. Landbúnaður er helsti atvinnuvegurinn í sveitabyggðum Reykhólahrepps.

Upp úr 1970 myndaðist þorp á Reykhólum og búa þar nú um 130 manns. Niðri við sjóinn er Þörungaverksmiðjan hf. sem veitir mörgum vinnu. Hún hefur verið nefnd einhver náttúruvænasta stóriðja í heimi. Aðrir starfa við skólana og dvalarheimili aldraðra og ýmsa þjónustu. Þjónusta við ferðafólk fer stöðugt vaxandi í Reykhólahreppi. Þar er m.a. að finna hótel, gistiheimili, ferðaþjónustu bænda, upplýsingamiðstöð, verslun, veitingastaði, þaraböð og bílaviðgerðir. Á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum fær fólk m.a. að kynnast æðarfuglinum á nýjan hátt.

Grettislaug á Reykhólum er 25 m útisundlaug með heitum pottum. Í Djúpadal er notaleg innilaug með heitum potti. Í Reykhólasveit er afar fjölskrúðugt fuglalíf og eitt allra besta fuglaskoðunarsvæði hérlendis og miklar líkur að sjá haferni. Þar eru ótalmargar fallegar gönguleiðir og margir athyglisverðir og sögufrægir staðir. Á sumrin er haldin fjögurra daga byggðarhátíð sem nefnist Reykhóladagar.

Þjónusta

Upplýsingar

Heimilisfang Grettislaug á Reykhólum
Póstfang/Bær 
380 Reykhólahreppur
Sími 
4303200 / 8923830
Netfang 
jonthor@reykholar.is
Vefsíða 
www.reykholar.is
Opnunartími 
1. maí –30. september
Fjarlægð frá Reykjavík: 228 km
Fjarlægð frá Seyðisfirði: 620 km

Þjónusta á staðnum

Kort

Myndir